143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[22:24]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra virðist vera nokkuð umhugað um að koma þeirri skoðun sinni á framfæri í þingsal að hv. Steingrímur J. Sigfússon hafi logið hér í pontu einhvern tíma, vegna þess að ég varð vitni að því að hann hrópaði þessi ókvæðisorð líka fyrr í dag. Mér finnst full ástæða til að hæstv. utanríkisráðherra verði víttur fyrir þessa framkomu, bara til þess að koma í veg fyrir að hann hrópi þetta mikið oftar.

Ég fór yfir það hér í ræðu um fundarstjórn forseta fyrr í dag að mér finnst það mjög alvarlegt þegar það er sagt í stjórnartillögu og í rauninni bara yfir höfuð þegar gefið er í skyn að atkvæðagreiðsla í þinginu túlki ekki afstöðu þingsins, að það sé eitthvað annað sem heiti afstaða þingsins en kemur fram í atkvæðagreiðslu. Til að ljúka því máli finnst mér vanta að fram komi yfirlýsing frá stjórn þingsins, frá forseta þingsins um að þannig sé það ekki. (Forseti hringir.) Það er ekki einhver önnur afstaða en atkvæðagreiðsla sem túlkar vilja þingsins. Það þarf að hreinsa það mál.