143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[22:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur beðið hv. þm. Steingrím J. Sigfússon afsökunar og það er vel. En hæstv. utanríkisráðherra á eftir að fara yfir þingsályktunartillöguna, fara yfir orðalag greinargerðarinnar og jafnvel þingsályktunartillögunnar sjálfrar og hæstv. utanríkisráðherra á eftir að koma hingað í ræðustól og biðja þá þingmenn afsökunar sem hann hefur borið sökum í greinargerð með þingsályktunartillögunni, jafnvel um stjórnarskrárbrot. Þetta á hæstv. utanríkisráðherra eftir að gera og kemur vonandi með til þingsins á morgun. En ég legg til að við slítum fundi, bíðum eftir þessum niðurstöðum frá hæstv. utanríkisráðherra, slítum fundi í kvöld því ég tel að það sé nóg komið.