143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég er mjög svo sammála honum um að framtíðin sé sú að auka þátttöku í ákvarðanatöku og ekki síst þeim stóru. Ég tel mjög mikilvægt að við bindumst sem fyrst böndum hér í þinginu og búum til leið fyrir þjóðina til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst það skipta mjög miklu máli. Það hefur verið á stefnuskrá míns flokks í mjög langan tíma og það var auðvitað von okkar sem vildum að ný stjórnarskrá færi í gegn á síðasta þingi að við næðum slíku ákvæði þar inn og þar með væri unninn ákveðinn sigur í því efni.

Mér og hv. þingmanni varð ekki að ósk okkar hvað það varðaði, en við þurfum þrátt fyrir það að finna einhverjar leiðir til að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þangað til við náum því markmiði okkar að þetta verði fellt í stjórnarskrá. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvaða leiðir hann sér færar í því efni, sérstaklega í ljósi umræðu um hinn mikla ómöguleika sem hæstv. fjármálaráðherra er orðinn frægur fyrir að fjalla um, og hvaða leiðir hann sér til þess að stíga þau skref að opna fyrir þjóðinni svo að hún geti í auknum mæli kallað eftir atkvæðagreiðslu þangað til við höfum fengið ákvæði um það í stjórnarskrá. Ég held að kannski ættum við hv. þingmaður og fleiri hér inni sameiginlega að skora á hæstv. fjármálaráðherra að koma með okkur í þá vegferð vegna þess að hann heldur því fram núna, þó að hann hafi ekki verið til í að styðja það á síðasta þingi, að þetta sé mikilvægt að gera. Það er vonandi að við náum með einhverjum hætti saman um það á þessu þingi.