143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála mjög mörgu í þessu sjónarmiði þótt ég telji ekki að fulltrúalýðræði sé komið á þann stað að vera orðið úrelt. Ég held að þetta geti farið ágætlega saman. Vandinn er kannski að þegar menn eru komnir inn á Alþingi á grundvelli fulltrúalýðræðis fyrir einhvern flokk fara þeir á einhvern hátt að splæsa sig saman og verða óttaslegnir við að spyrja stærri hópa meðal þjóðarinnar hvað þeir vilja. Þetta er líka hugarfar sem þarf að breyta hjá okkur stjórnmálamönnum. Ég held til dæmis að stórmál eins og þetta, og það er þess vegna sem ég styð mjög að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, eigi einmitt heima meðal þjóðarinnar en ekki inni á fulltrúasamkundunni vegna þess að stundum virkar hún ekki eins vel og að spyrja þjóðina beint, og svo er sannarlega í þessu tilfelli að mínu mati. (Forseti hringir.) Spurningin er of stór fyrir fulltrúasamkunduna en hún er nógu stór fyrir þjóðina.