143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður veltir fyrir sér þjóðaratkvæðagreiðslu og hvernig hún mundi gagnast okkur ef við nýttum okkur hana og settum löggjöf um hana. Við vitum auðvitað að ef þetta mál fer í þjóðaratkvæðagreiðslu er það ekki bindandi fyrir stjórnvöld.

Mig langar að velta upp gagnvart hv. þingmanni tillögu hans og fleiri hér inni um að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum, og við höfum aðeins þessa viku til að fá niðurstöðu í það ef svo á að verða, hvort hann haldi að það gæti nýst þessu máli jafn vel ef hún yrði síðar á kjörtímabilinu, eins og tillaga okkar Vinstri grænna gengur út á. Hún gengur út á að málinu verði vísað til þjóðarinnar á þessu kjörtímabili þó að ekki sé sett niður nákvæm dagsetning, en að fyrir liggi áður en við göngum til næstu alþingiskosninga niðurstaða í málinu og vilji þjóðarinnar.

Þá geta flokkar sem bjóða fram fyrir þær kosningar tekið mið af því í stefnumálum sínum að fyrir liggi skýr vilji svo þetta verði ekki áfram þrætuepli og menn, eins og fyrir þessar kosningar, lofi einhverju sem þeir ætla sér ekki að standa við, eins og að vísa málinu til þjóðarinnar um áframhaldið.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því ef þetta næst ekki í gegn, sem maður telur kannski ekki miklar líkur á, hvort leið okkar Vinstri grænna gæti verið hagstæð.