143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ef ekki er í boði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum um hvort halda skuli aðildarviðræðum áfram, en stjórnin væri til viðræðu og samninga um að fresta viðræðum í stað þess að slíta þeim, eins og þingsályktunartillaga Vinstri grænna kveður á um, þá mun ég að sjálfsögðu styðja það.

Það að fara í þjóðaratkvæðagreiðsluna samhliða sveitarstjórnarkosningum þýðir að þá fáum við svar frá þjóðinni um þetta og við fáum það eftir þrjá mánuði. Ég held að þjóðin sé orðin svolítið þreytt á þessari óvissu með málið. Þjóðin er líka þreytt á því að fá aðeins að kjósa á fjögurra ára fresti. Hún vill fá að kjósa oftar og hún vill fá að kjósa um stóru málin.

Þetta á við um kjósendur allra flokka. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, 2/3 hlutar þeirra, vilja fá þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum samhliða sveitarstjórnarkosningum.