143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil í allri vinsemd minna á að ég og margir fleiri sögðum að komið væri nokkuð nóg af fundahöldum í kvöld og að við bættum okkur kannski ekki mikið með því að teygja þetta alveg inn að miðnætti. Ég er víst næstur á mælendaskrá, eins og fram kom þegar forseti ætlaði að fara að gefa mér orðið, og ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki í sérstöku skapi til að fara í efnislega umræðu um þessa skýrslu núna. Mér sýnist mælendaskrá hvort sem er vera það löng að ljóst er að umræðunni heldur fram á morgun. Ég hefði talið skynsamlegt og betri endi á kvöldinu að forseti yrði við þeim óskum sem fjölmargir þingmenn settu fram, þótt ein ræða hafi verið flutt í millitíðinni, að láta staðar numið í kvöld, en neyði mig ekki í ræðustólinn.