143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:13]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér er ofsalega illa við að menn séu í leikfimi við að snúa út úr orðum manns. Þegar ég talaði á föstudaginn lá ekki fyrir nein tillaga um að slíta aðildarviðræðum. Ég talaði á föstudaginn í þeirri trú að við værum í alvörunni að hefja opna umræðu um kosti og galla Evrópusambandsaðildar á grundvelli skýrslu sem var þá nýkomin úr ofninum. Svo er dembt á okkur hér tilkynningu um það í skjóli nætur að komin sé tillaga frá ríkisstjórninni um að slíta aðildarviðræðum. Það breytir umræðunni um skýrsluna, það breytir henni algerlega. Það er ekki hægt að slíta þau mál í sundur. Í guðanna bænum, ekki gera svo lítið úr okkur þingmönnum að reyna að halda því fram. Ég á aðeins 5 mínútur eftir af ræðutíma mínum um skýrsluna og ég vil ekki fara af stað með ræðu mína (Forseti hringir.) nema vita hvernig farið verður með skýrsluna, hvort hún komi aftur inn í þing og í hvaða formi sú þingsályktunartillaga, sem sannarlega hangir á henni, verður. (Forseti hringir.) Viljið þið gera það fyrir okkur að skýra út fyrir okkur hvernig ferlið verður þannig að umræða geti farið af stað á vitibornu plani?