143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með mörgum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað, ég tel að það sé málinu ekki beint til gagns að við höldum umræðum hér áfram. Ég lít svo á að í gærkvöldi, þegar stjórnarmeirihlutinn samþykkti lengd þingfundar til miðnættis, hafi fólk kannski átt von á að umræðan kláraðist. Sýnt er að hún gerir það ekki í kvöld og heilmikið er eftir enn þannig að ég held að það sé ekki úrslitaatriði að við verðum hér áfram til miðnættis. Til að liðka fyrir þingstörfunum þá er það nú kannski þessi samstarfsvilji, samvinna og sáttfýsi — sem ítrekað hefur verið boðuð af hæstv. forseta og forsætisráðherra, sérstaklega á hátíðarstundum, að því eigi að beita. Mér finnst það ekki vera gert í kvöld og ekki hafa verið gert í gærkvöldi þegar þingfundur var lengdur án sérstaks tilefnis. (Gripið fram í: Var ekki nafnakall?)