143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef mínar efasemdir um að gott sé að anda ofan í kviðinn og ætla ekkert að fara efnislega í það. Ég ætla að gagnrýna hv. þm. Össur Skarphéðinsson og ræðu hans. Auðvitað snýst deilan um hvort við hættum eftir 33 mínútur. Ég vil, vegna þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er viðkvæmur einstaklingur, biðja hann strax afsökunar á því að gagnrýna hann, bara til öryggis af því að við höfum sé hvernig mál þróast hér og við erum komin með nýja vinnureglu þar sem allt sem skilgreint er sem brigsl er orðið gríðarlega alvarlegt í þessum sal.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hélt á síðasta kjörtímabili innblásnar ræður um að við ættum að tala fram í nóttina þannig að við brutum hvað eftir annað vökulögin sem eru, held ég, frá 1918 og kváðu á um … (Gripið fram í: 1922.) 1922, takk fyrir það. (Gripið fram í.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var nýbyrjaður þá og það þýddi fjögurra tíma svefn. Nú kemur hv. þingmaður (Forseti hringir.) og hvetur okkur til að fara heim. Ég vænti þess að hv. þingmaður svari harkalegum árásum mínum á hann. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum.