143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

dráttur á svari við fyrirspurn.

[15:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af spurningu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur þar sem hún óskar leiðsagnar hæstv. forseta í þessu máli, hvernig þingið geti rækt sitt eftirlitshlutverk og fengið þessar upplýsingar, langar mig að spyrja: Höfum við fordæmi fyrir því að lögregla hafi rannsakað embættisfærslur innan ráðuneyta? Hvernig hefur þá verið farið með upplýsingaveitu á slíkum tímum?

Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að vita það þannig að menn setji sér eitthvert vinnulag ef þetta fer að verða regla eða uppákomur af þessu tagi eigi sér stað aftur, að lögregla sé að rannsaka embættisfærslur innan ráðuneyta. Þá skiptir máli að þingið viti hvernig það ætlar að bregðast við og rækja sitt eftirlitshlutverk undir slíkum kringumstæðum. Það getur ekki verið að það hlutverk leggist bara niður á meðan lögreglurannsókn stendur yfir. Það mætti stundum halda að þá væri hægt að nýta slíkt sem tæki til þöggunar og ekki viljum við það, hæstv. forseti.