143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessi dagskrártillaga er um að breyta dagskránni þannig að dagskrárliður nr. 4, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, þingsályktunartillaga, komi strax á dagskrá eftir störf þingsins.

Þetta er það sem þjóðin kallar eftir, meira að segja tveir þriðju hlutar fylgjenda stjórnarflokkanna kalla eftir þessu og meira hjá öðrum flokkum. Þingsályktunartillagan er lögð fram af Pírötum, Bjartri framtíð og Samfylkingunni.

Þjóðin kallar eftir að fá að taka ákvörðun um þetta. Það er tímapressa á þessu. Ef tillagan verður ekki samþykkt núna fyrir föstudaginn uppfyllir þetta ekki lög um framgang þjóðaratkvæðagreiðslna, þ.e. þriggja mánaða frest frá því að þingið samþykkir þjóðaratkvæðagreiðsluna þangað til að hún fer fram.

Þetta er það sem pressar á. Það má bíða með önnur mál fram yfir helgi og þangað til þingfundur verður í þarnæstu viku, en á þessu máli er pressa. Þess vegna kalla ég eftir því að þingforseti og þingheimur samþykki þessa dagskrárbreytingu.