143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þessi sjónarmið, í þeirri ESB-umræðu allri er bara eitt mál sem er einhver tímapressa á og það er hvort við eigum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar.

Þetta er ekki einhver hugmynd sem er að kvikna hérna á undanförnum dögum. Þetta er hugmynd sem margir hafa látið í ljós í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum, allt frá alþingiskosningum. Ef við ætlum að ræða þessa hugmynd í þingsal, þótt ekki væri nema að ræða hana, er það nú eða aldrei. Allt annað í þessu ESB-máli má alveg bíða þannig að það eru augljós rök fyrir þessari dagskrártillögu. Við þingmenn Bjartrar framtíðar styðjum hana því að sjálfsögðu heils hugar.