143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það kann að koma þingheimi á óvart en mér er umhugað um farsæld og velferð formanns Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að það sé ákveðinn ómöguleiki að formaður stjórnmálaflokks standi ekki við orð sín og þess vegna vil ég hjálpa honum til þess.

Það hefur komið fram að hæstv. fjármálaráðherra lofaði þjóðinni því að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna. Frammi fyrir hundruðum flokksmanna sinna á fundi á Hótel Nordica lofaði hann því að það yrði á fyrri hluta kjörtímabilsins. Hann endurtók það loforð í Hörpu á fundunum sem hæstv. forsætisráðherra þorði ekki á.

Ég tel að okkur, þingheimi, sé sú skylda á herðum að koma í veg fyrir það að formaður Sjálfstæðisflokksins verði uppvís að því sem einn fyrirrennari hans kallaði sögulegustu svik lýðveldissögunnar. Þess vegna tel ég að þessi tillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eigi að koma sem fyrst á dagskrá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)