143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það liggur á að taka fyrir þessa þingsályktunartillögu. Það liggur ekki á að slíta viðræðum við Evrópusambandið.

Það veitir ekkert af því að þjóðin hafi, þótt það séu bara örfáir mánuðir, tíma til að ræða um þessa skýrslu og taka upplýsta ákvörðun. Það munar ekkert um það og er í raun sjálfsagt að hið háa Alþingi taki afstöðu til þingsályktunartillögunnar sem fyrst. Ég held að það sé heppilegast fyrir alla, það er vissulega heppilegast fyrir lýðræðið og ég sé enga ástæðu til að draga það eitthvað frekar.

Þar að auki vil ég nefna að þegar kemur að þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar er fullkomlega við hæfi að hún sé tekin fyrir á eftir þeirri sem fjallar um hvort skjóta eigi málinu í dóm þjóðarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)