143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Samkvæmt skoðanakönnunum ber ákaflega lítill hluti þjóðarinnar traust til Alþingis. Ég held að síðast þegar það var mælt hafi það verið um 10%. Þeir sem ætla að fella þessa tillögu hérna eru í raun að svara þjóðinni með því að segja: Sömuleiðis, við treystum ykkur ekki heldur.

Ég held að það sé sjálfsagt mál að setja þessa tillögu frá okkur í Bjartri framtíð, Samfylkingunni og Pírötum fremst á dagskrá. Það er þá hægt að afgreiða þetta og vísa málinu til þjóðarinnar. Þetta er síðasti séns til að gera það. Það eru engar dagsetningar í þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra, ekkert sem liggur á. Þetta er hins vegar mál sem skiptir máli að sé afgreitt í flýti og ég trúi ekki öðru en að meiri hluti Alþingis beri traust til þess að þjóðin geti leyst þetta mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)