143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að takast á um það hvernig dagskrá þingsins eigi að líta út. Fram er komin tillaga sem menn hafa haft tímann allt frá síðustu kosningum til að koma fram með en gerðu ekki fyrr en fyrir örfáum sólarhringum. [Frammíköll í þingsal.] Forseti, gæti ég fengið hljóð í salinn?

Þetta kann að vera viðkvæmt atriði en staðreyndin er sú að það var ekkert sem kom í veg fyrir að tillagan kæmi fram strax eftir kosningar en hún kemur fram nú. Þegar hún er fram komin er þess krafist af stjórnarandstöðunni að hún sé tekin nú þegar á dagskrá. Því miður er það þannig að minni hluti þingsins ræður ekki með ofbeldi dagskrá þingsins, það er ekki þannig. Þannig var það ekki síðasta kjörtímabil og þannig verður það heldur ekki núna. [Frammíköll í þingsal.]

Ég fæ hér hróp úr sal um að ég eigi að skammast mín. Má ég biðja menn um að reyna að vera aðeins málefnalegri en þetta? [Kliður í þingsal.]

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja um hljóð í þingsalnum og gefa ræðumanni orðið. Hann hefur orðið.)

Ég vil benda á að við greiðum atkvæði um það hvernig dagskráin er hér ef menn óska eftir því. Tillagan sem er nýframkomin á ekkert erindi fram fyrir tillögu stjórnarinnar á dagskrá þingsins.