143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í mínum huga hafa ESB-málin alltaf verið tiltölulega einföld. Þetta er mikið deilumál, við sækjum um, fáum samning, þjóðin les samninginn, þjóðin ræður hvort við gerumst aðilar að ESB eða ekki. Ekki mjög flókið, en því miður hefur þetta reynst þessu opna lýðræðissamfélagi svolítið mikið flókið og erfitt verkefni. Úr því sem komið er er risin mikil deila um það hvort við eigum að halda viðræðum áfram eða ekki, hvort við eigum að slíta þeim. Ég segi: Spyrjum þjóðina, spyrjum þjóðina að því. Þjóðin vill vera spurð. Er það flókið? Er það okkur um megn?

Nú segir mitt pólitíska nef að þessi dagskrártillaga verði felld. Það segir mér líka að þetta er líklega eini glugginn sem við höfum í þinginu til að ræða þetta mál efnislega. Þess vegna kem ég hingað upp aftur til að lýsa sjónarmiðum mínum. Núna vil ég skora á stjórnarliða að nýta þennan glugga til að lýsa sínum sjónarmiðum. Af hverju eru þingmenn stjórnarinnar á móti því að spyrja þjóðina í sveitarstjórnarkosningum? (Forseti hringir.) Koma svo. Núna getið þið komið upp í atkvæðaskýringu eða um þessa atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) og lýst ykkar sjónarmiðum.