143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv forseti. Ég kem upp til að lýsa yfir stuðningi við dagskrártillögu um að flytja framar tillögu til þingsályktunar enda er ég einn af flutningsmönnum þeirrar tillögu. Við vitum hvers vegna þarf að greiða atkvæði um hana nú. Þannig er háttað í lögum um þjóðaratkvæði að tillagan þarf að fá afgreiðslu.

Jafnframt vil ég segja það að þessi tillaga er kærkomið tækifæri fyrir formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til að efla þau gildishlöðnu loforð sem þeir gáfu rétt fyrir kosningar og oft þar á undan. Við getum farið lengra aftur en það. „Bjarni og Illugi vilja aðildarviðræður við ESB“, sagði á Vísi ekki alls fyrir löngu. „Trúir á leið að upptöku evru“, heilsíðuauglýsing með formanni Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra. (Fjmrh.: Án inngöngu í ESB.) (Gripið fram í.) „Trúir á leið að upptöku evru.“ (Fjmrh: Án inngöngu í ESB.)

Síðan er það loforð sem hæstv. fjármálaráðherra gaf rétt fyrir kosningar og forsætisráðherra (Forseti hringir.) tók undir það þegar þeir voru að stinga saman nefjum. Það er loforð við þjóðina. (Forseti hringir.) Með því að samþykkja þessa tillögu og taka þetta mál á dagskrá skapast sú mesta sátt sem hægt er að mynda hér á Alþingi, þ.e. (Forseti hringir.) um að vísa málinu í þjóðaratkvæði. Það er lýðræði.