143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langaði að taka fyrir orð hv. þm. Sigrúnar Magnúsdóttur um að hér hafi mikið verið talað um málið í gær og þar áður. Umræðan hefur aðallega átt sér stað um dagskrána. Ástæðan er sú að ósætti er um dagskrána og hvernig henni er háttað í þessu máli öllu saman, það að skýrslan sé lögð fram og strax eftir á, án þess að þjóðin fái að ræða málið neitt eins og var talað um á einhverjum tíma, á að fara í að slíta viðræðunum, ekki að gera hlé á þeim heldur að slíta þeim. Þess vegna er alveg fullkomlega eðlilegt að við vindum okkur beinustu leið í það mál hvort við ætlum að treysta þjóðinni fyrir þessu eða ekki, útkljáum það og síðan má fara að ræða það sem er talað um hér í einhverju öðru samhengi en því. En ágreiningurinn snýst um dagskrána. Það er alveg sjálfsagt að gefa smá eftir þegar kemur að dagskránni og leyfa okkur að greiða atkvæði um hvort það eigi að treysta þjóðinni. Þetta er dagskráratriði, það er ekki einu sinni hægt að gefa (Forseti hringir.) þinginu tækifæri til þess að kjósa (Forseti hringir.) um mál hérna.