143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Stjórnarliðar eru hissa á flýtinum varðandi það mál sem hér er verið að greiða atkvæði um dagskrártillögu að. Þessi flýtir kemur auðvitað til af því að orð hæstv. ráðherra í aðdraganda skýrslu Hagfræðistofnunar voru á þá leið að á grundvelli skýrslunnar yrði tekin ákvörðun um áframhaldandi ferli aðildarviðræðnanna. Það hefur nú verið svikið. Ég styð þar af leiðandi að sjálfsögðu þessa dagskrártillögu og ekki síst vegna þeirrar vanvirðingar sem lýðræðislegu hlutverki þingmanna hefur verið sýnd og kom m.a. fram í máli formanns þingflokks Framsóknarflokksins um að við þingmenn værum með þingstörfum okkar að tefja áform ríkisstjórnarinnar. Í ljósi viðhorfa sem þessara hlýtur að vera eðlilegt að leggja sem allra fyrst (Forseti hringir.) ákvörðun um áframhaldandi viðræður í dóm kjósenda í (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu.