143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú er komin upp sérstök staða vegna þess að við erum hér að ræða það að fá á dagskrá tillögu sem snýr að því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum. Fyrir liggur líka lagafrumvarp þar sem menn ætla sér að gera breytingar á lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Ég man ekki betur en að við höfum upplifað eitthvað sambærilegt þessu á síðasta kjörtímabili, en þá var það hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sem flutti sams konar tillögu. Þá komu hv. þingmenn, stjórnarandstæðingar, sem nú eru meðal annars flutningsmenn tillögunnar og réðust á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hér úr ræðustól og notuðu þannig orð að ég vil ekki hafa þau eftir, virðulegi forseti, í öllum fjölmiðlum, alls staðar, skrifuðu um þetta greinar, bloggfærslur og fleira. Það er ánægjulegt að sjá að hv. þingmenn eru nú búnir að sjá að sér og eru nú bara í sama liði og Vigdís Hauksdóttir hvað þetta snertir. (Gripið fram í.)