143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

dagskrártillaga.

[16:18]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég styð þessa tillögu. Mig langar að vitna í blogg hæstv. forseta þingsins frá 2005:

„Evrópumálin þurfa allir flokkar — ekki síst stærsti flokkur þjóðarinnar — að skoða án fyrir fram gefinnar niðurstöðu eða hleypidóma. Hugsanlega kæmust menn að því að ESB og við eigum ekki samleið — en við getum ekki tekið þá ákvörðun nema eftir skoðun og með rökum. Sú skylda hvílir á stjórnmálamönnum að skoða af fullri ábyrgð allar leiðir sem hugsanlega gætu fært Íslandi meiri velsæld í framtíðinni.“

Um þetta snýst þetta mál fyrir mér. Er hugsanlegt að aðild að ESB færi okkur Íslendingum meiri velsæld? Ég veit það ekki og ég mun aldrei komast að því nema við fáum samning. Það er lykilatriði. Svo greiðum við bara atkvæði um hann. Það þarf ekki að vera neitt mikið mál. Þjóðin vill þetta, ég vil þetta, atvinnulífið vill þetta, verkalýðsforustan vill þetta, eiginlega allir. (Fjmrh.: En ekki þú?) Af hverju ekki? Jú, ég vil það. Ég vil bara sjá hvað samningurinn felur í sér, Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra.