143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

dagskrártillaga.

[16:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta er söguleg atkvæðagreiðsla. Formaður Sjálfstæðisflokksins gengur þau svipugöng sem hæstv. forsætisráðherra hefur krafist af honum og kemur út úr þeim verr til reika en efni stóðu til. Hann hefur verið knúinn til þess af Framsóknarflokknum að svíkja samþykkt síns eigin landsfundar og ganga í berhögg við stjórnarsáttmálann en það sem er þó verst er að hann hefur svikið sín eigin orð. Þá má spyrja: Er hægt að treysta öðrum orðum hæstv. fjármálaráðherra?

Hæstv. forsætisráðherra og Framsóknarflokknum má hins vegar óska til hamingju með að hafa svínbeygt Sjálfstæðisflokkinn með þessum hætti. Nú getur hæstv. forsætisráðherra hallað sér makindalega aftur á bak og sagt eins og annar maður sagði af allt öðru tilefni: Það er fullkomnað.

Sjálfstæðisflokkurinn horfist hins vegar í augu við þá staðreynd að hann hefur afhent forustu í utanríkismálum tveimur hv. þingmönnum (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins, Ásmundi Einari Daðasyni og Vigdísi Hauksdóttur.

Ég segi já.