143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að spyrja í umræðu um skýrsluna sem er núna orðin umræða um bæði málin, um slitin líka: Hvað liggur á? Hvað er það í skýrslunni sem veldur því að stjórnarflokkarnir ákveða að það þurfi í skyndi, eins og að rífa í neyðarhemil, að koma hingað inn með tillögu um að slíta aðildarviðræðunum sem gengur miklu lengra en stjórnarsáttmálinn og lengra en landsfundarsamþykktir beggja þessara flokka? Ég hef ekki fengið nein svör við því. Og ég held ég fái ekki nein svör við því á kvöldfundi í kvöld. Ég held að það mundi stytta umræðurnar töluvert ef menn færu að tala skýrt af hálfu stjórnarflokkanna, hvaða asi sé hér á ferðinni. Hæstv. forseti, sem leggur þetta til fyrir þeirra hönd, hlýtur að geta gefið okkur einhverjar skýringar á því, vegna þess að það eru enn tveir og hálfur mánuður í það samkvæmt dagskrá þingsins að þingi verði slitið fyrir sveitarstjórnarkosningar og ég skil ekki pressuna eða asann. Mér finnst að það eigi að upplýsa okkur þingmenn um hann.