143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[16:46]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku var birt viðtal við næringarfræðinginn Cindy Mari þar sem hún kafaði ofan í umfangsmestu hóprannsókn sem gerð hefur verið á Íslandi. Rannsóknin gekk út á hvernig heilsufar barna og unglinga hefði áhrif á efri ár, sérstaklega sjúkdóma sem tengjast mataræði eins og hjarta- og æðasjúkdóma.

Í síðustu viku fjallaði þingmaðurinn sem hér stendur um átakið GoRed til að vekja athygli á hjarta- og æðasjúkdómum og þá sérstaklega kvenna því að erfiðara er að greina einkenni þeirra, en þessi rannsókn færir okkur nær orsökum hjarta- og æðasjúkdóma. Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru þær að næring sem börn fá í móðurkviði og í barnæsku getur haft langvarandi áhrif á heilsufar þeirra. Börn sem fá ekki þá næringu sem þau þurfa á þessum mikilvægu árum lífs síns eru líklegri til að fá alvarlegri sjúkdóma seinna á ævinni. Einnig má skoða vöxt barna á aldrinum 8–13 ára. Börn sem þyngjast hraðar á þessu aldursskeiði eiga frekar á hættu að deyja úr hjarta- og æðasjúkdómum. Áhættan er einnig meiri á meðal kvenna.

Við Íslendingar borðum of mikið og ekki nógu hollt og það hefur greinileg áhrif á sjúkdóma sem við fáum síðar á lífsleiðinni. Fæðuvenjur og lífsstíll Íslendinga þarf að breytast en einnig þarf næringarvitund að verða betri. Lifrin framleiðir til dæmis 70% af öllu kólesteróli í blóði úr einföldum kolvetnum eins og hvítum sykri. Slíka fræðslu mundi ég vilja strax í grunnskóla og jafnvel fyrr. Með því á ég ekki við að segja eigi fólki hvað eigi að borða og hvað ekki, frekar eigi að kynna afleiðingar slæms mataræðis, mikillar sykurneyslu, ofneyslu kolvetnis, áhrif mataræðis á ofnæmiskerfið o.s.frv.

Þá vil ég lýsa andúð á 50% afslætti á sælgæti á laugardögum þó að það aðstoði marga við að beina neyslunni á þennan tiltekna dag. Um 8 tonn af sælgæti er selt á nammibörum. (Forseti hringir.) Að lokum vil ég skora á verslunareigendur (Forseti hringir.) að jafn mikill afsláttur verði á ávöxtum og (Forseti hringir.) grænmeti á nammidögum.