143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[16:51]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni störf þingsins. Mig langar að ræða það hvernig við getum styrkt eftirlit þingmanna og þingsins því manni hefur orðið sífellt betur ljóst hversu nauðsynlegt er, þegar gestir koma á fundi þingnefnda, að sérfræðigögnum og þeirri úrvinnslu sem þar er til umræðu sé komið til nefndarmanna með góðum fyrirvara þannig að hægt sé að fara yfir þau gögn áður en þau eru kynnt á formlegum fundi.

Í morgun komu á fund fjárlaganefndar fulltrúar fjármálaráðuneytisins og kynntu veikleikamat fjárlaga eða framkvæmd fjárlaga 2014. Því miður var það svo að þeir gátu hvorki á fundinum né fyrir fundinn dreift skriflegum ábendingum eða greiningum ásamt skriflegum skýringum og helstu frávikum sem þeir hafa rekist á í vinnu sinni þar sem starfsmenn ráðuneytisins þurfa fyrst að kynna þau gögn fyrir yfirmanni sínum, fjármálaráðherra. Auðvitað skil ég það sjónarmið, það er sjálfsagt og vel skiljanlegt. En vegna þess að það er margra milljarða veikleiki í fjárlagafrumvarpinu veltir maður því auðvitað fyrir sér hvort fundurinn hafi í sjálfu sér verið tímabær þar sem nefndarmenn áttu ekki kost á því að kynna sér fyrir fram það sem þarna var kynnt munnlega.

Ég held að við getum öll verið sammála um að undirbúnir nefndarmenn gera þingstarfið mun markvissara og samkvæmt minni reynslu, sem er nú ekki mjög löng, á þetta við um allar nefndir, ekki bara fjárlaganefnd, bæði nú og fyrr. Það liggur heldur ekki enn fyrir hjá fjármálaráðuneytinu fullnaðargreining á því hvers vegna Landspítalinn fór 1,5 milljarða fram úr fjárheimildum síðasta árs þrátt fyrir að sú fjárhæð virðist hafa legið fyrir haustið 2013. Það er því mat mitt að ráðuneytið hefði átt að vera í stakk búið að leggja fram þessa greiningu í dag. Það er líka áhyggjuefni ef fjármálaráðherra hefur ekki enn þá fengið greiningu á þessari stöðu því það kom fram á fundinum að sérfræðingar hans bjuggu ekki yfir þessum upplýsingum. En það er von mín að eftirlit okkar við (Forseti hringir.) framkvæmd fjárlaga eigi eftir að styrkjast á komandi þingi.