143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[16:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ekki ónýtt fyrir okkur þegar reynsluboltar eins og hv. 8. þm. Reykv. s., Karl Garðarsson, koma hingað upp og leiðbeina okkur um þingstörfin.

Ég ætlaði að fjalla aðeins um viðfangsefni sem hefur leitað dálítið á mig að undanförnu og það er spurningin um hvernig orðspor Íslands út á við sé að þróast og hvernig umfjöllun um Ísland sé að þróast í erlendum fjölmiðlum og annars staðar þar sem okkar mál ber á góma. Af því hef ég nokkrar áhyggjur. Því verður ekki neitað að fréttaskýringar og blaðagreinar, m.a. í stórblöðum um efnahagsmál, hafa ekki að öllu leyti verið jákvæðar fyrir Ísland undanfarna mánuði. Það hefur borið á því t.d. að ýmis ummæli hæstv. forsætisráðherra og nokkur ummæli hæstv. fjármálaráðherra hafi verið túlkuð þannig af erlendum aðilum að það andi köldu í garð erlendrar fjárfestingar, ef ekki tengsla við útlönd yfirleitt, af hálfu nýrrar ríkisstjórnar. Fréttir af því að ríkisstjórnin áformi að gera skipulagsbreytingar á Seðlabankanum og hafi auglýst lausa stöðu seðlabankastjóra vekja athygli í fjármálaheiminum og setja spurningarmerki við það hvað sé að gerast á Íslandi. Tillaga sem kemur óvænt fram um full slit á viðræðum við Evrópusambandið og þó ekki síður ýmis ummæli sem um Evrópusambandið hafa verið höfð af ráðamönnum hér vekja einnig spurningar. Austur í Rússíá hefur forseti lýðveldisins tekið að sér að túlka ósamþykkta niðurstöðu Alþingis um að slíta viðræðum við Evrópusambandið og þannig gæti ég lengi talið.

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ríkisstjórn láti sinna þessum málum með skipulegum hætti eins og gert var á síðasta kjörtímabili, m.a. með því að ráða erlend sérfræðifyrirtæki til að koma málstað Íslands og rökum á framfæri í að vísu ýmsum erfiðum deilumálum eins og makríldeilunni (Forseti hringir.) en líka til þess almennt að byggja upp og endurreisa orðspor og traust til Íslands í umheiminum.