143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Karl Garðarsson kallaði á fjölmiðla að fylgjast með orðum okkar undir liðnum um fundarstjórn forseta. Það væri áhugavert ef hann tæki þátt í þingstörfunum með okkur og væri hér í salnum og heyrði hvað það er sem við erum að kvarta yfir varðandi fundarstjórn. Ég ætla að spyrja enn eina ferðina þeirrar spurningar sem ég hef ekki fengið fullnægjandi svör við: Stendur ekki til að tæma umræðu um þá skýrslu sem hér er á dagskrá næst og meðhöndla hana í nefnd þingsins áður en tekin er ákvörðun um frekari aðgerðir varðandi aðildarferli Evrópusambandsins eins og okkur var talin trú um?

Á meðan þingsályktunartillaga um slit á aðildarviðræðum frá ríkisstjórn Íslands er næsta mál á dagskrá tel ég að hér sé verið að svíkja ákveðin fyrirheit og sætti mig ekki við slíka fundarstjórn.