143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú skal ég reyna að einfalda spurninguna sem ég er ítrekað búin að spyrja hér. Það eru tveir og hálfur mánuður eftir af þessu þingi. Hvers vegna fara allt í einu af stað kvöldfundir dag eftir dag þegar þetta eina mál er komið á dagskrá frá ríkisstjórninni? Hvers vegna?

Það eru engin önnur mál komin með, það er bara þetta eina mál. Get ég fengið svar við því, virðulegi forseti? Á þá að fara að keyra … [Fjármála- og efnahagsráðherra leggur blað í púltið.]

Virðulegi forseti. Er þetta venjan hér? Að hæstv. ráðherrar skutli í ræðumenn pappírum meðan þeir eru að tala í ræðustól? (Fjmrh.: Bara dagskráin.) Hvernig er farið með vítur í þessum þingsal? Er það svoleiðis? (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra getur komið hér í ræðustól kjósi hann svo og sagt sína meiningu hér. Hann hendir ekki í mig pappírum þegar ég hef orðið. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig. (Forseti hringir.)

Hæstv. ráðherra hefur hér (Forseti hringir.) opinberað ósannsögli sína í aðdraganda kosninga, (Forseti hringir.) hann hefur aldrei verið maður til að koma hingað upp og segja hvers vegna, en hann er maður til þess að henda í mig pappír á meðan ég stend hér í ræðustól. (Forseti hringir.) Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins, virðulegi forseti, og ég geri kröfu um það að hæstv. forseti víti hæstv. ráðherra.