143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gleymdi því áðan og fékk ekki tækifæri til að koma í umræðu um atkvæðagreiðslu og segja að mér finnst vanta hjá hæstv. forseta að hann kveði upp úr um að atkvæðagreiðslurnar sem fram fara í þinginu séu lýsandi fyrir afstöðu þingmanna.

Það er orðið tilefni til þess þegar við vinnum hér með plögg og þó að það hafi verið dregið til baka hafa menn leyft sér að efast um að það sé að marka það sem við segjum.

Við erum hér með hljóm á bak við okkur, trommuslátt mótmælenda sem eru enn einn daginn úti á Austurvelli. Fyrirsagnir í blöðunum eru: Öfgar og ofríki, segja mótmælendur. Mótmælendur á Austurvelli saka ríkisstjórnina um að svíkja loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.

Hæstv. fjármálaráðherra segir svo í Valhöll: Ég tek ekki þátt í þessu leikriti. Ég er ekkert hissa þótt hann vilji yfirgefa sviðið eftir að hann var settur inn í leikrit af samstarfsflokknum í ríkisstjórn og síðan hefur hann ekkert annað hlutverk en að ganga í takt við hæstv. forsætisráðherra. (Forseti hringir.)

En við höfum kallað eftir því hér að fá að vita (Forseti hringir.) hvernig á að vinna þetta mál áfram. Það mundi liðka mjög fyrir þingstörfum ef við hefðum hugmynd um (Forseti hringir.) hvort mönnum er einhver alvara með að taka þetta mál til umræðu þannig að það hafi einhver áhrif á það sem hér er fram undan.