143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrir nokkrum ræðum stóð hv. þm. Katrín Júlíusdóttir og sagði að engin væru mál á dagskránni. Af því tilefni fannst mér sjálfsagt að leggja hér í ræðustól dagskrá þingsins, en það eru 25 mál á dagskrá Alþingis í dag. Ég hvorki kastaði neinum pappírum í hv. þingmann, eins og síðan hefur verið sagt, né réðst að henni eða truflaði með nokkrum hætti, ég lagði bara varlega blaðið hérna, þetta er dagskrá Alþingis. Þetta er dagskráin. Af því tilefni tók ég eftir að þingmaður hreytti síðan í mig ókvæðisorðum eftir ræðuna. Það er allt í lagi, það má alveg vera þannig. Nú eru ræðurnar komnar á fjórða hundrað um fundarstjórn forseta, sem sagt þrjú hundruð og eitthvað ræður um fundarstjórn forseta, allt til þess að (Forseti hringir.) koma í veg fyrir að á dagskrá verði tekin (Forseti hringir.) þau mál sem eru á dagskrá þingsins. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Þetta eru yfir þrjú hundruð ræður sem haldnar hafa verið um fundarstjórn forseta. (OH: Þetta eru engin svör.) Hv. þingmenn sem (Forseti hringir.) biðja um að menn sýni háttvísi (Forseti hringir.) hérna í salnum ættu þá kannski að gera slíkt hið sama sjálfir.

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk.)