143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

[Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti óskar eftir ró hér á fundinum. Orðið hefur hv. 3. þm. Reykv. s. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.)

Hæstv. forseti. Það er rétt að hér hafa verið haldnar margar ræður um fundarstjórn. Eflaust eru þær komnar yfir þrjú hundruð síðustu dagana. Þær eru þó bara brot af þeim fjölda fólks sem nú stendur á Austurvelli og mótmælir fyrirætlunum hæstv. ríkisstjórnar.

En ég kom hér upp að þessu sinni undir liðnum um fundarstjórn forseta til að kvarta yfir því að hæstv. forseti hafi ekki gert athugasemdir við framkomu hæstv. fjármálaráðherra sem truflaði hér hv. varaformann Samfylkingarinnar, Katrínu Júlíusdóttur, þar sem hún var að ræða um fundarstjórn forseta, með því að setja blað hér í ræðustólinn í stað þess að eiga samskipti við hana úr pontu, auk þess sem hann leyfði sér það bragð sem þekkt er gagnvart konum, (Gripið fram í.) að segja við þær (Fjmrh.: Ég kastaði …) þegar þær eru ósáttar: Róaðu þig. Þetta lýsir kvenfyrirlitningu, þetta lýsir virðingarleysi fyrir almennum þingmönnum hér og ég ætlast til þess að forseti minn líði ekki slíkt hér í þingsal.