143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar bara til að deila reynslusögu með hæstv. forseta. Á síðasta kjörtímabili sat ég í forsetastóli þegar sá atburður varð að tveir hv. þingmenn gengu hér fram fyrir ræðustólinn og héldu á lofti blaði eða bréfi og trufluðu þáverandi ræðumann sem er núverandi hæstv. menntamálaráðherra. Ég, sem sat á forsetastóli, varð að vísu ekki var við þetta nákvæmlega en þegar mér varð það ljóst að ræðumaður hafði verið truflaður með þessum hætti gerði ég hlé á þingfundinum og fundaði með bæði þeim þingmönnum sem í hlut áttu og ræðumanni og í kjölfarið varð það niðurstaðan að ég sleit þingfundi. Þetta var uppákoma sem þótti afar óheppileg og ósmekkleg og ég sem forseti tók undir það.

Nú kann vel að vera að það sé ekki sambærilegt eins og hæstv. utanríkisráðherra segir, ég veit ekki um það, en það var að minnsta kosti truflun á ræðu þingmannsins sem þótti ekki góð. (Forseti hringir.) Þessari reynslusögu vildi ég bara deila með hæstv. forseta.