143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að heyra formann Sjálfstæðisflokksins tala um þennan ómerkilega minni hluta í sínum flokki sem sé ekki á línu formannsins. (Fjmrh.: Það er ekki rétt.) Ja, mér fannst býsna ónærgætilega talað um þau sjónarmið. Og er það ekki veruleikinn að þegar þetta er greint eru í stuðningsmannabaklandi og kjósendabaklandi allra flokka á Íslandi um þetta eitthvað skiptar skoðanir? Við vitum líka að skoðanakannanir hafa sveiflast út frá aðstæðum þannig að menn ættu að tala varlega um það og dæma þetta ekki algjörlega út frá augnablikinu.

Að það hafi ekkert upp á sig að fara í samningaviðræður er eiginlega orðinn nýi málflutningurinn hér. (Fjmrh.: Eftir reynslu.) Á grundvelli þessarar skýrslu, eða hvað? Sannar þessi skýrsla það? Nei, aldeilis ekki. Hún gerir það nefnilega ekki. Og veruleikinn er sá að hver einasta þjóð sem hefur sótt um eða gengið í Evrópusambandið hefur farið í langar og strangar samningaviðræður. Er það þá bara allt misskilningur? Hefur það ekkert upp á sig? Jú, það hefur nefnilega heilmikið upp á sig. Það hefur reynslan sýnt og dæmin eru um það. (Forseti hringir.) Menn geta deilt um hversu líklegt það er að við fáum mikið eða lítið, það er alveg hárrétt, en ekki er hægt að halda því fram að viðræður hafi ekkert upp á sig vegna þess að aldrei hafi neitt komið út úr þeim hjá einum eða neinum. Það er sögulega rangt.