143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi Evrópska efnahagssvæðið og samninginn þar er hann auðvitað í gildi sem slíkur. Ég mundi ekki telja að ástæða væri til að hafa áhyggjur af því að við héldum ekki öllum okkar viðskiptakjörum og núverandi stöðu innan þess samnings. En vandamálin snúa kannski meira að framtíðinni og því sem er að gerast innan Evrópusambandsins og mögulegum breytingum á stofnanasamstarfi þess sem við getum lent í vandræðum með á komandi missirum, meðal annars gagnvart okkar stjórnarskrá. Það er ekki hægt að útiloka að þetta hafi einhver áhrif almennt á andrúmsloftið í þessum samskiptum. Það er að sjálfsögðu önnur aðgerð að slíta viðræðunum formlega en að setja þær á ís eða gera á þeim hlé og það verður lesið öðruvísi út úr því af Evrópusambandinu og öllum umheiminum.

Ég hef ekkert síður áhyggjur af því hvernig Ísland birtist umheiminum, ekki bara út af þessu máli heldur ýmsu fleiru sem hér hefur verið að gerast (Forseti hringir.) og menn hafa verið að segja. Ég get viðurkennt að ég hef af því nokkrar áhyggjur að Ísland sé að lenda á meiri berangri og umræða um okkur utan frá sé að verða neikvæðari.