143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Samningurinn gildir, segir hv. þingmaður. Það er gott og vel en það er einmitt þess vegna sem ég rekst á þessar áhyggjur hjá fólki sem spyr mig úti í bæ, og ég hef svolitlar áhyggjur af þessu sjálfur, það er sérstaklega sem varðar gjaldeyrishöftin og allt sem varðar peningamálin, hvort það komi okkur ekki í klandur fyrr eða síðar. Ég tala nú ekki um ef til þess kemur að þurfa að endursemja um EES eða breyta stjórnarskrá, kannski á hátt sem við erum ekki reiðubúin til að gera, að þá séum við í raun og veru komin í ansi mikið meira klandur ýmist gagnvart viðskiptatengslum við Evrópu eða gagnvart sjálfstæðinu sjálfu, sem mönnum er svo annt um, og velti fyrir mér hvort EES-samningurinn geti á endanum orðið til þess að við séum neydd, án okkar eigin frumkvæðis, til þess að breyta stjórnarskrá í samræmi við hagsmuni Evrópusambandsins frekar en (Forseti hringir.) ef við gengjum inn í ESB þar sem við hefðum þó eitthvað að segja um málið.