143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi gjaldeyrishöftin sérstaklega hef ég svo sem ekki verið þeirrar skoðunar að það væri líklegt, hvorki í núverandi stöðu né þótt við værum á fullri ferð í viðræðum við Evrópusambandið, að við fengjum efnislega hjálp frá Evrópusambandinu við að leysa þau. Það held ég að sé dálítið langsótt.

Það snýr fyrst og fremst að hinum efnahagslega veruleika sem við stöndum frammi fyrir gagnvart því máli og það verðum við að takast á við sjálfir, held ég, það er að verðmætasköpun hér og útflutningstekjur dugi okkur til þess að halda uppi þokkalegum gjaldeyrisjöfnuði í gegnum þá aðgerð.

Auðvitað er það engu að síður rétt að gjaldeyrishöftin eru frávik frá Evrópuréttinum og við erum í raun og veru á undanþágu frá EES-samningnum og fjórfrelsinu á meðan hér eru gjaldeyrishöft eða fjármagnshöft. Það er út af fyrir sig rétt. Auðvitað getur safnast í sarpinn ef við erum í vandræðum með fleiri og fleiri mál sem tengjast til dæmis EES-samningnum. Það er ekki hægt að útiloka það.