143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:55]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við erum meðal annars að ræða hvort þjóðin fái tækifæri til að segja sína skoðun og því ástæða til að velta fyrir sér þeirri umræðu sem orðið hefur um ómöguleika. Það hefur slegið mig mjög í umræðunni þegar hæstv. fjármálaráðherra hefur tjáð sig um að ekki sé hægt að leggja mál fyrir þjóðina ef niðurstaðan verður í andstöðu við sitjandi ríkisstjórn. Nú veit ég að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur verið í þeirri stöðu að hafa ákveðna skoðun á Evrópusambandinu en engu að síður viljað leiða málið til lykta og ljúka því með því að þjóðin fái tækifæri til að segja álit sitt.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni nánar um þetta vandamál. Á það að vera vandamál fyrir stjórnmálamann, jafnvel þó að hann sitji í ríkisstjórn, að ef fólk óskar eftir því að það eigi sér stað þjóðaratkvæðagreiðsla að niðurstaðan geti orðið í andstöðu við vilja sitjandi stjórnvalda. Þarf viðkomandi ríkisstjórn þá nauðsynlega að víkja?