143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur algjörlega fyrir að grundvöllur viðræðnanna var sá að þjóðin kysi svo um samning og réði niðurstöðunni. Í Noregi var þetta þannig að stjórnmálaflokkarnir, ég held allir eða kannski með einni undantekningu, sameinuðust um það fyrir kosningarnar þar að hvaða afstöðu sem þeir hefðu mundu þeir virða niðurstöðu þjóðarinnar því að það væri þjóðin sem ætti að ráða þessu og leiða þetta til lykta. Og þannig á það auðvitað og hlýtur að vera.

Vel má færa fyrir því rök að bestu samningamennirnir væru harðskeyttir andstæðingar þess að við gengjum í Evrópusambandið. Þeir væru þá harðskeyttastir í þeim samskiptum. Augljóslega er þetta ósköp einfalt. Ef menn fara heiðarlega í það mál að reyna að landa eins góðum samningi og hægt er, sem hlýtur að vera markmiðið hjá hverjum einasta sómakærum Íslendingi sem nálægt þessu kæmi ef þjóðin hefði falið honum það, þá er það verkefnið. Það segir ekkert til um að menn þurfi að skipta um skoðun, að menn þurfi að vera sammála því að ganga í Evrópusambandið. (Forseti hringir.)

Það er auðvitað þannig, þó að ég sé ekki í þeim hópi að ég reikni með að það skipti miklu hversu góður eða minna góður samningur yrði, (Forseti hringir.) það sannfærður andstæðingur þess að ganga í Evrópusambandið er ég. (Forseti hringir.) En ég veit vel að það yrðu margir meðal þjóðarinnar sem mundu láta það ráða einhverju um afstöðu sína.