143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef Ísland gengi í Evrópusambandið og myntbandalagið og tæki upp evru eru líkur á lægri vöxtum og lægri verðbólgu og náttúrlega traustum gjaldmiðli, afnámi verðtryggingar og greiðum aðgangi að stórum markaði fyrir íslenskar vörur. Allt varðar það almannahag og hefur verið reiknað út að með lægri vöxtum mundu sparast um 100 milljarðar kr. vegna húsnæðislána, að ríkið mundi spara 45 milljarða og fyrirtækin í landinu mundu spara um 65 milljarða vegna lægri vaxta. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að við gætum nýtt 200 milljarða til ýmissa verkefna hér á landi og hvort hann geti bent mér á aðra betri niðurstöðu en upptöku evru hvað þessi mál varðar.