143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi þá spurningu hvort við gætum notað 200 milljarða betur eða við hefðum gagn af því. Við hefðum áreiðanlega gagn af 200 milljörðum og gætum notað þá til ýmissa góðra hluta, það er enginn vafi á því. Spurningin er hins vegar hvort aðild að Evrópusambandinu eða upptaka evru sé eina leiðin til þess að ná þeim árangri.

Ég er sammála hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að ná niður vöxtum hér á landi, þeir eru allt of, allt of háir, óheyrilega háir. Það þarf að ná niður verðbólgu og það þarf að hafa góða stjórn á efnahags- og peningamálum þjóðarinnar, ég er algjörlega sammála því. En það eru líka dæmi um að það sé góð stjórn á þessum málum hjá þeim sem ekki eru með evru, þannig að ég er ekki alveg sannfærður um að það sé endilega samasemmerki þar á milli, eins og hv. þingmaður lætur að liggja. Danir eru t.d. með sína dönsku krónu en tengja hana við evru. Þeir eru með sama vaxtastig þannig að það eru auðvitað möguleikar að tengjast öðrum gjaldmiðli eða binda gjaldmiðilinn. (Forseti hringir.) Norðmenn eru með sérstakan gjaldmiðil, sem ekki er tengdur öðrum (Forseti hringir.) gjaldmiðli og það hefur nú gengið tiltölulega vel hjá þeim, en kannski af ýmsum öðrum ástæðum.