143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja að öðru máli vegna þess að upphaflegur tilgangur minn með því að óska eftir andsvari við hv. þingmann var að spyrja um tiltekið atriði í ræðu hans. Hann vék nokkuð að þeim hugmyndum sem menn hefðu haft við málsmeðferðina 2009, um tímalengd og umfang þess verkefnis sem verið var að leggja í.

Ég er að velta fyrir mér að hve miklu leyti utanríkismálanefnd fjallaði um þessa þætti, þ.e. hversu mikið starf væri fyrir höndum. Manni finnst maður lesa það út úr áliti nefndarinnar frá sumrinu 2009 að menn hafi gert sér vonir um það að ferlið yrði fljótlegra og einfaldara en raunin varð. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort sá hægi gangur sem var á verkinu eftir að þingsályktunartillagan var samþykkt hafi valdið honum vonbrigðum.