143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Hv. þingmaður nefndi að misjafnar ástæður væru fyrir því að fólk drægi hina eða þessa ályktunina, þ.e. um það hvort ganga ætti í Evrópusambandið eða ekki, það þyrftu ekki endilega að vera landbúnaðarmálin og sjávarútvegsmálin — sem kannski er mest talað um, kannski eðlilega, það eru stærstu málin og mikið hagsmunamál fyrir þjóðina — heldur jafnvel náttúrumál eða vinnuréttindamál eða eitthvað því um líkt.

En svona í ljósi þessara ummæla langar mig að spyrja hv. þingmann að tvennu: Annars vegar hvort hann telji landbúnaðarmálin og sjávarútvegsmálin vera mikilvægustu umræðuefnin? Í öðru lagi, burt séð frá því, hvaða önnur mál sem varða samningana hann telur hvað mikilvægust til þess að ná samningi sem þjóðin gæti sætt sig við?