143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið.

Í framhaldi af því að hv. þingmaður nefndi að hún hefði á síðasta kjörtímabili verið áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd — kom þar af leiðandi að vinnu við mörg flókin mál sem voru til meðferðar þar á þeim tíma, fyrst aðildarumsóknina og síðan líka Icesave-málið með ákveðnum hætti — langar mig að spyrja hvernig hv. þingmaður mundi sjá fyrir sér vinnu við meðferð þessarar skýrslu í utanríkismálanefnd, af því að við vorum að biðja um upplýsingar um þetta áðan en fengum ekki. Ég vildi bera undir þingmanninn hvernig hún gæti séð það.

Ég gæti séð fyrir mér að nefndin gæti nýtt nefndadaga næstu viku til þess að kalla til sín gesti, kalla til sérfræðinga Alþjóðamálastofnunar sem eru nú að vinna að annarri skýrslu, kalla til fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, því að það er algjör óþarfi fyrir okkur að afgreiða þetta mál í fullkomnum ágreiningi við þá. Maður skilur ekki alveg til hvers eiginlega, því að þeir eiga auðvitað svo mikið undir. Það er ekki hægt að segja við fyrirtækin í landinu að við ætlum að setja þau í fangelsi, læsa þau þar inni og kasta lyklinum. Þá fara þau bara. Þau taka sínar ákvarðanir sjálf og störfin flytjast úr landi.

Því skiptir miklu máli að reyna að ná einhverju samtali við alla aðila. Ég sæi fyrir mér að hægt væri að nýta nefndadaga næstu viku til þess og mögulega koma svo aftur með inn í þingið álit utanríkismálanefndar, byggt á efnislegri umræðu um þetta sem gæti verið okkur til leiðsagnar í umræðunni um tillögu hæstv. utanríkisráðherra sem mun síðan koma á dagskrá. Við gætum þá haft það álit okkur til stuðnings. Auðvitað þætti mér best ef hægt væri að sameina vinnuna þannig að skýrslan sem Alþjóðamálastofnun (Forseti hringir.) er með í vinnslu gæti líka komið hingað inn með sama hætti.