143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

umræða um skýrslu utanríkisráðherra.

[19:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil segja örstutt vegna þeirra uppákomu sem hæstv. forseti nefndi áðan að hefði orðið hér í dag að ég er auðvitað ekkert sátt við að hafa verið sýnd sú óvirðing sem mér var sýnd í ræðustóli áðan, að fá miða í hendur frá hæstv. fjármálaráðherra, sem hefur ekki tekið þátt í þessari umræðu, og vera síðan sagt meðan ég var í ræðustóli af nokkrum ráðherrum í hliðarsölum að róa mig. Það er ástæðan fyrir því að ég snöggreiddist og sagði hluti hér í þingsal — eftir að ég kom úr stólnum — sem ég hefði ekki átt að segja og bið ég þingheim afsökunar á því.

Það breytir því ekki að svona eigum við ekki að koma fram við hvert annað, þ.e. að eina framlag ráðherra sem hafa ekki sýnt þessum sal eða þingheimi þá virðingu að koma hingað og taka þátt í umræðum sé að vera með skæting í formi sneplasendinga til ræðumanna. Það er kannski ein leið til þess að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra sem ekki vill taka þátt hér, að fara að skrifast á við hann í ræðustól. Þetta var ef til vill einhver opnun á það, við skulum sjá til.

Virðulegi forseti. Ég, fyrir mína parta, bið þingheim afsökunar á þeim orðum sem ég lét falla úr sæti mínu. Þar með er málinu lokið af minni hálfu, þótt ég sé ekki sátt við framkomu hæstv. fjármálaráðherra í minn garð hér fyrr í dag.