143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[19:59]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hæstv. forseti segir að mjög þung orð hafa fallið í þessari umræðu, bæði í dag og í gær. Ég var mjög ánægður með að hæstv. utanríkisráðherra kom hingað upp í ræðustól í gær og bað hv. þm. Steingrím J. Sigfússon afsökunar á því að hafa viðhaft mjög óviðurkvæmileg ummæli í hans garð í frammíkalli. Ég sé síðan í fjölmiðlum í dag að hæstv. utanríkisráðherra segist standa við þau orð sín. Ég velti þess vegna fyrir mér á hverju hæstv. utanríkisráðherra var nákvæmlega að biðjast afsökunar hér í gær.

Ég vil líka segja vegna uppákomunnar hér í dag, sem ég varð að vísu ekki vitni að, að mér finnst að það eigi að vera ákveðin þinghelgi, ef ég má nota það orð, í kringum þennan ræðustól svo að aðrir þingmenn komi ekki með pappíra eða standi við ræðustólinn á meðan menn flytja ræður. Það held ég að geti ekki gengið og menn verði að gæta sín í þeim efnum. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera eitthvað sem menn eru sammála um.