143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hæstv. forseta að við eigum auðvitað að hafa umræðuna eftir atvikum eins hófstillta og hægt er. En það er reiði hér í þingsalnum, það er reiði úti á Austurvelli, það er reiði í samfélaginu út af því að menn hafa verið að svíkja loforð og út af því að lögð er fram skýrsla í samræmi við stjórnarsáttmála og í miðri umræðunni kemur tillaga um að taka ekkert mark á henni.

Nú bætist enn við að hæstv. ráðherra kemur hér og eiginlega — ég veit ekki hvernig á að taka þessari yfirlýsingu hans — heldur því fram að þrælsótti við Evrópusambandið valdi því, að það sé afsökunin fyrir því, að hér er kastað inn tillögu í miðri umræðu um skýrslu. Hvað lá svona mikið á? Skýringin kom í kvöldfréttunum. Ég hefði ekki látið mér detta í hug að hæstv. utanríkisráðherra mundi krjúpa á kné fyrir Evrópusambandinu og láta það stjórna þinginu hér með því að koma með tillögu þvert ofan í gefin loforð og þvert ofan í þá eðlilegu málsmeðferð sem hér átti að verða um (Forseti hringir.) skýrsluna sem lögð var fram.