143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er kannski ekki þörf á því en ég ætlaði eiginlega að fá orðið til að biðja þingmenn um að við sameinuðumst nú um að hlífa þinginu við frekari umræðum um framgöngu hæstv. utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, og þær grafalvarlegu ávirðingar sem hann bar á mig hér í gærkvöldi.

Nú hefur einstaklingurinn Gunnar Bragi Sveinsson að einhverju leyti endurtekið þær ávirðingar í viðtali við fjölmiðla. Þar var sem betur fer um hljóðupptöku að ræða sem hægt er að hlusta á og greina frá orði til orðs og ég mun gera það og skoða réttarstöðu mína í framhaldinu. Ég hélt að um sæmilega heiðvirða afsökunarbeiðni væri að ræða hér í gær og ég tók hana gilda og átti þar af leiðandi ekki von á því að framhald yrði á þessu máli.

Nú hefur það að einhverju leyti orðið. Það finnst mér segja mest um afsökunarbeiðandann, en málið er þess eðlis og svo alvarlegt og snýr að svo alvarlegum ásökunum, um að ráðherra segi þingi ósatt, ég tala nú ekki um ef það væri (Forseti hringir.) vísvitandi gert, að svona í þingræðisríkjum í kringum okkur, herra forseti, leiðir það yfirleitt tafarlaust til afsagnar ráðherra ef menn eru staðnir að slíku. (Forseti hringir.) Það gæti átt eftir að gerast á Íslandi, við sjáum til.

Ég sem sagt held að við ættum að færa þessi samskipti okkar Steingríms J. Sigfússonar og Gunnars Braga Sveinssonar út fyrir veggi Alþingis og sjá til með þau.