143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:42]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svona er þetta oft, bestu og einföldustu og mest „brilljant“ aðgerðirnar liggja í hlutarins eðli. Maður þarf ekki að hafa hugsað það lengi hvernig í ósköpunum eigi að kynna þetta vegna þess, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, að fólk kynnir sér þetta sjálft. Hjólið fer í gang ef það er efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig skildi ég hann. Þetta mun ég nota framvegis í mínum málflutningi, virðulegi forseti.

Nú hefur verið talað um aðlögun og samninga og hvort þetta séu samningar eða aðlögunarsamningar eða aðildarsamningar, og þá langar mig til að spyrja hv. þingmann um EES. Hvað er EES? Getur hann verið sammála mér um að EES-samningurinn er náttúrlega ekki neitt nema ein eilífðaraðlögun sem við höfum ekkert um að segja? Við verðum bara að aðlaga okkur og aðlaga okkur og aðlaga okkur meir.